Sigurður Skúlason​

Sigurður Skúlason
fæddist í Reykjavík þ. 10. desember 1946

Nám
Listdansskóli Þjóðleikhússins/Erik Bidsted 1956-60
Leiklistarskóli Ævars Kvaran 1963-64
Verslunarskóli Íslands 1960-66
Leiklistarskóli Þjóðleikhússins 1964-67

Störf

Sigurður starfaði fyrst og fremst sem leikari alla sína starfsævi og við leiklistartengd störf, s.s. upplestur og kennslu í framsögn og flutningi bundins máls sem óbundins, sýningarstjórn, auk þess að leikstýra í útvarpsleikhúsinu og víðar.
Hann fékkst einnig við ýmis önnur störf á lífsleiðinni eins og almenna verkamannavinnu, verslunar- og skrifstofustörf, byggingavinnu, ritstörf, dagskrárgerð fyrir útvarp, póstburð og prófarkalestur.


Námskeið og endurmenntun

Sigurður sótti ótal námskeið og fór í smiðjur hérlendis og erlendis, bæði faglegs eðlis sem og til persónulegrar uppbyggingar og starfaði í samvinnu við eða undir leiðsögn kunnáttufólks frá Norðurlöndunum, Englandi, Rússlandi, Bandaríkjunum og Kanada - að rödd og raddbeitingu, líkamshreyfingu, leik og látbragðsleik, tilfinningatjáningu, sálgreiningu, hugleiðslu o.fl.
Má þar m.a. nefna regluleg raddnámskeið hjá Nadine George um langt árabil, raddnámskeið hjá Cecile Berry, námskeið í leik hjá Kaisu Korhonen og Ritvu Holmberg, hjá Per Enquist, sviðshreyfingar og áflog á leiksviði hjá Nikolaj Karpov, námskeið í grímuburði hjá Thanos Vovolis og Giorgos Zamboulakis, leiklistarnámskeið hjá Suzanne Osten og Ann-Sofie Bárány, svo nokkur séu nefnd.
Sigurður sótti einnig ýmis námskeið á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og Leikmannaskóla Þjóðkirkjunnar, s.s. í Freud og kenningum hans, Passíusálmunum, Að skrifa gott íslenskt mál, Ibsen og Villiöndinni, Jobsbók, Trúarlegum stefjum í verkum Nóbelskáldsins, Sálgæslu, William Shakespeare, Dostojevskí, Bragfræði og Ritlist.